Maí er alþjóðlegur fótverndamánuður og er hann tileinkaður ýmis konar málefnum sem viðkoma fótum og heilbrigði þeirra. Í ár er maí tileinkaður krabbameini og fótum. Þú hugsar kannski hvernig getur krabbamein tengst fótunum ? Jú, það er margt sem tengist fótunum í sambandi við krabbamein.
 
BERÐ ÞÚ SÓLARVÖRN Á ILJARNAR ?
 
Eins og sólin er dásamleg þá getur hún verið jafn skaðleg. Við erum sem betur fer orðin meðvituð um skaðsemina og almenningur farinn að nota sólarvörn daglega en við eigum það til að gleyma að bera sólarvörn á fæturnar- sérstaklega undir iljarnar þar sem húðin er berskjölduð. Sortuæxli geta myndast á rist ,milli táa, undir nöglum og á iljum. Því er mikilvægt að muna eftir að bera sólarvörn á allan fótinn, sérstaklega ef þeir verða fyrir mikilli geislun eins og í sandölum og opnum skóm.
 
FÓTAVANDAMÁL VEGNA LYFJAMEÐFERÐAR.
 
Þeir sem gangast undir meðferð vegna krabbameins geta fengið ýmis fótavandamál. Því er mikilvægt að fylgjast vel með fótunum en eins og við erum mörg þá bregðumst við mismunandi við meðferðum. Með því að hlúa vel að heilbrigði húðar og nagla má koma í veg fyrir mörg vandamál. Hér eru nokkur dæmi um fylgikvilla sem krabbameinslyfjameðferð getur haft á fætur:
 
-Breytingar á nöglum: Neglurnar eiga það til að þorna og rifna auðveldlega sem getur leitt til sýkinga. Neglurnar geta líka þykknað og orðið stökkar. Einnig hægist oft á vexti þeirra sem hefur í för með sér ýmis konar vandamál sem ber að meðhöndla af fagaðila.
 
-Húðbreytingar: Algengt er að húðin þynnist, þorni og jafnvel springi, sem eykur hættu á sýkingum. Því getur verið nauðsynlegt að að næra og mýkja húðina með réttum og viðeigandi efnum til að vinna gegn þessum einkennum.
 
-Taugaverkir og skert tilfinning er ekki óalgengur kvilli lyfjameðferða. Oft eru notaðir kælihanskar og kælisokkar til að koma í veg fyrir eða minnka líkur á þessum einkennum og eins hafa ákveðin krem með mentoli komið vel að notum til að draga úr einkennum.
 
-Bjúgur og bólgur í fótum eru oft fylgifiskar veikinda og lyfjagjafa . Þar hjálpar sogæðanudd oft til við að halda einkennum í skefjum og til að bæta líðan.
 
HÆGT ER AÐ FÁ GÓÐ RÁÐ VARÐANDI UMHIRÐU FÓTA HJÁ LÖGGILTUM FÓTAAÐGERÐAFRÆÐINGUM, KRABBAMEINSFÉLAGINU OG KARÍTAS HEIMAHJÚKRUN TIL AÐ FORÐAST VANDAMÁL OG FÁ VIÐEIGANDI MEÐFERÐ.